Mars
Aðalfundur Félags eldri borgara í Ölfusi var haldinn í febrúar og var vel sóttur. Meðal mála var að sjálfsögðu kjör stjórnar og einnig var sagt frá sumarferð félagsins sem lofar góðu en ferðalangar munu bregða sér á Unaðsdaga í Hólminum og dveljast þar frá mánudegi til föstudags síðast í apríl.
Sú breyting varð á í kjölfar samþykktar nýrrar lagagreinar að nú skipa aðeins fimm menn stjórnina í stað sjö áður. Þessi breyting var gerð af tveimur ástæðum, í fyrsta lagi vegna þess að talið er að fimm manna stjórn muni fyllilega geta sinnt þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni og einnig vegna þess að ekki hefur alltaf gengið of vel að fá menn til stjórnarstarfa. Úr stjórn gegnu þær Anna Lúthersdóttir formaður, Brynja Herbertsdóttir og Fríða Björnsdóttir. Anna hefur verið formaður síðustu fjögur ár og Brynja setið í stjórn í átta ár að minnsta kosti svo notuð séu hennar eigin orð. Nýr formaður var kjörinn Ásberg Lárentsínusson og aðrir í stjórn Guðfinna Karlsdóttir ritari, Jóna Sigurðardóttir gjaldkeri og meðstjórnendur Bjarni Valdimarsson og Danielína Jóna Bjarnadóttir. Ásberg færði fráfarandi stjórnarkonum blóm í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf.
Sumarferð FEBÖ verður farin 27. apríl og komið heim 1. maí. Ákveðið var að njóta nú Unaðsdaga í Stykkishólmi. Gist verður á Hótel Stykkishólmi en boðið er upp á mikla skemmtun alla dagana sem þar verður dvalist. Ferðin mun kosta 40 þúsund krónur á mann sem er gjafverð ekki síst þegar tillit er tekið til þess að matur er að mestu leyti innifalinn í verðinu og á hverju kvöldi verður hægt að njóta skemmtilegheita ýmiss konar.
Fólk er beðið að skrá sig í ferðina hið fyrsta svo hægt sé að staðfesta fjölda þeirra sem taka þátt í henni. Á móti pöntunum taka og gefa nánari upplýsingar þau Ásberg í síma 896 3117, Ingibjörg í síma 897 2931 og Trausti í síma 846 763.
fb