Tónar og trix er 20 manna sönghópur eldri borgara í Þorlákshöfn. Ása Berglind Hjálmarsdóttir er stjórnandi kórsins. Vissulega er söngurinn aðalatriðið hjá hópnum en hann leikur líka á hljóðfæri, semur tónlist og dansar ef svo ber undir.

Samstöðutónleikar
Söngur, bumbusláttur og sílafónar.

Tildrög að stofnun sönghópsins voru þau að Ása Berglind lauk tónmenntakennaraprófi vorið 2007. Annar hluti lokaverkefnis hennar var að vinna verkefni með Félagi eldri borgara í Þorlákshöfn, ásamt Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur. Verkefnið fólst í því að æfa og skapa tónlist með eldri borgurum. Byrjað var að syngja saman, síðan var farið að slá taktinn með alls konar ásláttarhljóðfærum og líkaminn var líka notaður. Búkslátturinn var mjög vinsæll hjá hópnum. Allir voru tilbúnir að prófa eitthvað nýtt. Afrísk tónlist var mikið notuð og hún kallar fram þörf hjá fólki að hreyfa sig í takt og því var dansi bætt við.

Eitt leiddi af öðru og hópurinn samdi ljómandi fallegt lag. Lögð var áhersla á að njóta þess sem verið var að gera, hafa gaman af og sleppa fram af sér beislinu, láta tækni og fullkomnun liggja á milli hluta.  Afrakstur verkefnisins var svo fluttur í Salnum í Kópavogi. Móttökurnar voru frábærar og þótti allt saman takast afar vel. Styrkur var veittur til verkefnisins úr Lista- og menningarsjóði Ölfuss.

Tónar og trix
Ása Berglind blæs í trompet.

Hópurinn var svo ánægður með störf Ásu Berglindar að hann vildi endilega halda áfram að syngja undir hennar stjórn og var sönghópurinn Tónar og trix fromlega stofnaður um haustið. Hópurinn syngur enn af mikilli gleði og ánægju. Nýverið var tekinn upp diskur með söng hópsins í Þorlákskirkju og það kláraði sönghópurinn á einni helgi.