Þorrablót Félags eldri borgara í Ölfusi var haldið á bónadag 20. febrúar í sal Níunnar. Viðgerðir og endurbætur hafa staðið yfir á gólfinu í salnum síðan 3. janúar og var kappkostað við að ljúka verkinu fyrir blótið. Sigrún Theódórsdóttir forstöðumaður vígði nýtt hljóðkerfi en hún var veislustjóri að venju. Þorramaturinn kom frá Kjarnafæði sem Beata og Sigga sáu um að matreiða.

Séra Baldur Kristjánsson talaði um þorrann hér áður fyrr og var skemmtilegur að vanda. Annað veifið stóðu gestir upp og sungu saman; að sjálfsögðu minni kvenna og minni karla. Einhver metingur var, hvor hópurinn hefði kyrjað hærra. Alltént var Ásberg Lárenzínusson, formaður Félags eldri borgara í Ölfusi, ekki ánægður með frammistöðu karlanna og lét þá syngja aftur og það borgaði sig; flutningurinn var mun betri í seinna skiptið.

Sigrún kom svífandi inn salinn með bakka fullan af glösum með brennivíni frá bæjarstjóranum, Gunnsteini Ómarssyni, sem hún skenkti á borðin. Bæjarstjórinn er vanir að koma sjálfur með veigarnar en hann var vant viðlátinn í þetta sinn.

Rúsínan í pylsuendanum var ungur söngvari úr Ölfusinu. Sigrún sagðist hafa heyrt svo undurfagra tenórrödd þegar verið var að vinna í salnum og komst að því að hún kom úr barka Arnars Gísla Sæmundssonar. Hann þáði boð Sigrúnar um að koma og syngja nokkur lög fyrir eldri borgara.

Hér eru myndir frá þorrablótinu.

Similar Posts