Anna og Guðni
Anna Lúthersdóttir og Guðni Karlsson fyrrum formenn.

Stofnfundur styrktarfélags aldraða Í Ölfushreppi var haldinn 2. desember 1994 að Egilsbraut 9 í Þorlákshöfn. Á stofnfundinn mætti 51 maður en alls voru stofnfélagar um 105 talsins. Ragnheiður Ólafsdóttir setti fundinn og gerði grein fyrir tildögum þess að þessi félagsskapur væri orðinn að veruleika en ræddi einnig um þau fimm ár sem eldri borgarar væru búnir að vera saman í leik og starfi. Á þessum fyrsta fundi voru lesin upp drög að lögum fyrir félagið, kosið í stjórn og félagsgjöld ákveðin. Fyrsta grein laganna er svohljóðandi: Félagið heitir Félag eldri borgara í Ölfushreppi. Heimili í Þorlákshöfn. Fyrsti formaður félagsins var Guðni Karlsson. Áður en fundi var slitið og kaffi og meðlæti á borð borið var þorrablótsnefnd skipuð.

Nýr formaður sat ekki lengi auðum höndum. Hann boðaði til stjórnarfundar þann 15. desember og er efni þess fundar eftirtektarvert en þar ræddi formaður um þörf fyrir þjónustuheimili fyrir aldraða í hreppnum og vanda eldra fólks sem ekki getur hugsað um sig sjálft. Hafði hann miklar áhyggjur að þeim orðrómi að farið væri að skoða pláss í öðrum byggðarlögum, fyrir þann hóp, þar sem öll tengsl við átthaga og vini væru rofin. Strax á þessum fundi var einum stjórnarmanni falið það verkefni að taka saman mögulega þörf, næstu fimm árin, fyrir þjónustuheimili eða hjúkrunarheimili.

Sigurður Óla formaður
Sigurður Ólafsson var formaður í 13 ár.

Maður er manns gaman gæti verið slagorð félagsins því þorrablótsnefnd var sett á fót á fyrsta fundi félagsins og upplýst var um bankabók á öðrum fundi sem stæði fyrir ferðasjóð og var samþykkt að þannig yrði það áfram. Á þeim fundi var einnig ákveðið að halda dansnámskeið.

Strax á öðrum stjórnarfundi var ákveðið að ganga í Landsamband aldraða, sem var einungis fimm ára gamalt þá. Þar kom einnig fram að til stæði að halda fund með fólki úr ráðuneyti heilbrigðismála til skrafs og ráðagerða um þjónustu hér við aldraða. Enn er verið að tala um brýna nauðsyn þess að hér verði sett á fót hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Ásberg formaður.
Áberg Lárenzinusson núverandi formaður félagsins.

Á þessum árum hafa nokkrir formenn ráðið ríkjum í félaginu. Guðni gegndi embættinu til ársins 1998 en þá tók Sigurður Ólafsson við. Hann var formaður í 13 ár en þá tók Anna Lúthersdóttir við keflinu. Ásberg Lárenzíusson tók við því í byrjun árs 2015. Á þessum árum, frá stofnun félagsins, hefur ýmislegt verið brallað. Landssambandsþing félaga eldri borgara sótt og formannafundir félaga eldri borgara í Árnessýslu, svo eitthvað sé nefnt. Þessir fundir álykta oft um hagsmunamál eldri borgara og þrýsta á stjórnvöld að öllum réttindum eldri borgara sé fylgt. Ótal sinnum hefur krafan un næg hjúkrunarrými á Suðurlandi verið rædd og bréf send til réttra aðila til að fylgja kröfunni eftir.

Félag eldri borgara í Ölfusi, eins og félagið heitir í dag, stendur fyrir mikilli starfsemi fyrir félagsmenn. Stundatafla er send til allra félaga haustin og þar sem fjölbreytt afþreying er í boði svo allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi.

Guðrún S. Sigurðardóttir
Greinin birtist í Bæjarlífi, 6. tölublaði 2014, í tilefni af 20 ár afmæli félagsins 2014