Október 2015

Þá er októbermánuður genginn í garð og styttist óðum í jólabasarinn. Undirbúningur  gengur vel og spretta hér upp alls konar jólafígúrur á miðvikudögum en þá fer basarvinnan fram og munið að allir eru velkomnir að taka þátt í henni og koma með sínar hugmyndir.

Tréútskurður er kominn í fullan gang og eru enn laus pláss þar, kennari er Valdimar Ingvason. Þeir sem vilja prófa eru hjartanlega velkomnir og það þarf ekki að koma með neitt með sér nema góða skapið. Það eru hnífar á staðnum og efni til útskurðar. Námskeiðið er á fimmtudagsmorgnum frá kl 9.00 - 12.00.

Íþróttahúsið i Þorlákshöfn
Íþróttahúsið i Þorlákshöfn

Okkur langar að minna á boccia sem er leikið í Íþróttahúsinu á mánudögum og miðvikudögum kl. 9.40 – ath. breyttan tíma frá stundatöflu. Boccia er skemmtileg íþrótt sem allir geta stundað og hvetjum við fólk til að mæta og prufa sig áfram í kastlistinni. Það ríkir mikill keppnisandi í íþróttinni og blóðflæðið eykst til heilans sem skerpir þá ósjálfrátt hugsunina til góðra hluta t.d að koma við í bakaríinu á heimleiðinni og fá sér kaffi og kökusnúð með félögunum og leysa þjóðfélagsmálin.

Við minnum á spilakvöldin en nýtt fjögurra kvölda „holl“ byrjar 19. okt. og er á mánudagskvöldum kl. 20.00. Gjald fyrir kvöldið er 700 kr.

Nú svo verður karlakvöld 16. okt. kl. 20.00 þar sem karlar koma saman og háma í sig kótelettur eins og enginn sé morgundagurinn. Konukvöld verður svo 30. október og trúi ég því að þar verði ekkert hám heldur dömulegt nart í eitthvað gúmmelaði.

Að endingu vil ég benda á stundatöfluna sem var birt í síðasta Bæjarlífi og minna á að allir lífeyrisþegar eru velkomnir að taka þátt í því starfi, og svo er alltaf kaffi á könnunni og dagblöð til aflestrar.

ST

 

Similar Posts