Ég fór ásamt félögum mínum í Norræna félaginu í Ölfusi í menningarferð um nærsveitir sem var svo skemmtileg að ég má til með að deila ferðasögunni. 

Innsetning eftir Gerry Hill.

Listasafn Árnesinga

Við byrjuðum í Listasafni Árnesinga. Undir leiðsögn Kristínar Scheving safnstjóra skoðuðum við vidólistaverk eftir listamennina Gary Hill, Steinu og Woody Vasulka. Kristín var ein þeirra sem setti upp sýninguna. Hún sagði frá listamönnunum og verkum þeirra af næmni, þekkingu og skilningi sem gerði það að verkum að við nutum sýningarinnar betur en ella. Sýningin Summa og Sundrung er mjög metnaðarfull sýning og hún mun fara víða um heim eftir að henni lýkur hér heima.

Hespuhúsið

Guðrún hrærir í ullinni.

Guðrún Bjarnadóttir tók á móti okkur í Hespuhúsinu, Lindarbæ í Ölfusi þar sem hún býr og starfar. Það var fróðlegt að sjá og heyra hvernig hún litar ullina með íslenskum jurtum úr náttúru landsins þó stundum þurfi hún að leita út fyrir landsteinanna eftir sérstökum litum. Heimilið og vinnustofa hennar er sannkallaður ævintýraheimur, hægt er að setjast í setustofuna og glugga í bækur og jafnvel taka í prjóna. Þar er einnig vísir að safni með gömlum munum og margir þeirra tengjast gömlu handverki.

Skálholt

Þriðja stoppið var í Skálholtskirkju þar sem vígslubiskup sr. Kristján Björnsson tók á móti okkur.

Kristján segir frá Skálholtskirkju.

Hann sagði okkur frá kirkjunni og munum hennar sem margir ef ekki allir hafa tengingu við Norðurlöndin. Kristján sagði skemmtilega frá og er afar vel að sér í sögu Skálholts og naut þess að miðla af visku sinni og við að meðtaka.

Við borðuðum í Efsti-Dal áður en við héldum heim á leið.

 

Similar Posts