Vetrarstarfið á Níunni hefur að mestu verið hefðbundið en leikfimi undir stjórn Hildigunnar sjúkraþjálfara er þó ný af nálinni. Leikfimiæfingarnar þykja mjög góðar og gárungar segja; að nú sé fólk farið að geta klippt á sér táneglur og pússað hælana eftir að hafa stundað leikfimina það sem af er vetri enda er aðsóknin mikil.
Boccia hópurinn fór á Eyrarbakka að heimsækja Boccia hópinn þar, þann 21. nóvember. Hópurinn vígði nýju bolina sína og var svona sallafínn í þeim.
Í byrjun nóvembermánaðar var haldið konukvöld á Níunni og var salurinn fullur af konum á öllum aldri. Talið er að þarna hafi verið slegið met í aðsókn – og konurnar skemmtu sér ljómandi vel.
Jólabasar var haldinn laugardaginn 19. nóvember á Níunni og var mikið af fallegu handverki til sölu og sannkölluð kaffihúsastemning - með vöfflum, heitu súkkulaði og að sjálfsögðu var jólatónlist leikin.
Félagsvist hefur verð spiluð vikulega í haust, á hverjum mánudegi, og er eitt kvöld eftir á þessu ári, mánudag 4. des. kl. 20.
Jólabingó verður haldið á Níunni þann 12. desember kl. 20. Allri eru velkomnir; alltaf gaman að hittast á aðventunni og spila bingó og ekki skemmir að eiga kannski von á vinningi!
Sönghópurinn Tónar og Trix ætar að vera með jólatónleika í Versölum, Ráðhúsi Ölfus, þriðjudaginn 13. des. kl. 20.
Nemendur tónlistarskólans ætla að koma á Níuna, miðvikudaginn 14. desember kl. 15.30, og spila fyrir gesti og gangandi. Allir velkomnir.
Það er alltaf rjúkandi kaffi á boðstólum á Níunni og hver veit nema að jólasmákökur verði í skálum á aðventunni og það væri sannarlega gaman að sjá sem flesta reka inn nefið.

Similar Posts