September 2015
Haustið er komið og vetrarstarfið hafið á 9-unni og þar með hjá Félagi eldriborgara í Ölfusi. Sitthvað nýtt verður á döfinni og annað með hefðbundnum hætti.
Helstu nýjungar eru: Útskurðarnámskeið undir leiðsögn Valdimars Ingvasonar. Það verður á fimmtudögum kl. 9. Silkimálun er líka nýjung og Eyjólfur Veturliði Jónsson kennir. Námskeiðið er klukkan 13 á föstudögum. Tiffaný námskeiðin verða tvö að þessu sinni, bæði á þriðjudögum klukkan 9 og 13. Svo er það vinna fyrir jólabasarinn sem fram fer kl. 13 á miðvikudögum undir stjórn Fríðu og Gillu. Hagnaður af jólabasarnum verður látinn renna til styrktar ferðar sem farin verður til Færeyja næsta haust.
Færeyjaferðin verður farin með Norrænu frá Seyðisfirði. Þangað er ekið í rútu, siglt með ferjunni og dvalist í fimm daga í Færeyjum og síðan haldið heim aftur. Þeir sem áhuga hafa á þessari ferð sem verður í september á hausti komandi þurfa að koma á 9-una í byrjun október og skrá sig þar hjá Sigrúnu forstöðukonu. Þegar hafa fjölmargir látið vita að þeir vilji taka þátt í ferðinni. Fundað verður sérstaklega um Færeyjaferðina seinni hluta október og þá með þeim sem ætla að fara í ferðina. Ekki verður önnur löng ferð farin á árinu á vegum FEBÖ en hins vegar verður farin dagsferð að vanda.
Fastir liðir verða boccia, keramikmálun, spiladagar, kortagerð, handavinnukaffi, spil og stólajóga sem er kl. 9.45 á föstudögum. Félagsvistin verður á mánudagskvöldum og bingó í byrjun desember.
Síðan er rétt að huga að skemmtunum FEBÖ. Árshátíðin verður 25. september og hefst klukkan 19. Konukvöldið 30. október kl. 20 og Litlu jólin 27. nóvember kl. 18. Og algjör nýjung verður KARLAKVÖLD í stíl við konukvöldið og verður það16. október kl. 20.
Á félagsfundi sem haldinn var nú í ágúst var í fyrsta sinn notað ræðupúlt sem 9-unni hefur áskotnast. Púltið liggur á rekaviðardrumbi sem Páll Þórðarson skar út en hann vann marga fallega hluti úr rekaviði og standa slíkir drumbar eftir hann á íbúðaganginum á 9-unni. Sigurður Ólafsson smíðaði svo púltið sjálft og setti ofan á drumbinn og er þetta einstaklega fallegur og velunninn gripur að allra mati.
En ekki nægir að eiga bara ræðupúlt og þess má geta að á aðalfundi FEBÖ sl. vor færði Anna Jóhannesdóttir, ekkja Bjarnþórs Eiríkssonar, félaginu fundarhamar sem Jóhann Þór Hafþórsson hafði skorið út. Hamarinn var gjöf til minningar um Bjarnþór en hann var einn af stofnendum félagsins og fyrsti gjaldkeri þess. Félagið þakkar þessa fallegu gjöf og mun hún koma sér vel á fundum framtíðarinnar.
Loks er rétt að minna fólk á parafinvaxpottinn, motomed æfingahjólið, göngubrettið og stigvélina sem hægt er að nýta sér til gagns og gamans. Snyrtifræðingur og fótafræðingur koma einnig á 9-una á ákveðnum tímum. Svo má skoða bókasafnið og dagblöðin og fá sér kaffisopa. Allar nánari upplýsingar er að fá í síma 483 3614. Munið að þið eruð velkomin á 9-una, já og gleymið ekki matnum í hádeginu sem þið verðið að panta daginn áður. fb