GÞ23 október spiluðum við hjónin golf á Þorlákshafnarvelli. Vinafólk okkar fékk þá snildarhugmynd að það væri upplagt að spila golf þennan dag og buðu okkur með. Þau er þaulvön en það erum við hjónin ekki. Í einfeldni minni hélt ég að maður spilaði ekki golf þegar væri komið svona langt fram í október.

Golfdella

Um það leyti sem ég hætti að vinna ákvað ég að reyna að fá golfdellu þar sem þessi fínu golfvöllur væri innan seilingar frá heimili mínu, þó ekki á holu eitt eins og ein vinkona mín hélt. Ég hafði lýst því fjálglega fyrir henni að ég byggi svo nálægt vellinum að ég sæi eiginlega á holu eitt. Hún gat ómögulega gert sér grein fyrir hvar húsið mitt væri þegar hún kom að spila á Þorlákshafnarvellinum stuttu síðar. Lái henni hver sem vill.

Þórlákshafnarvöllur

Þegar við fluttum til Þorlákshafnar 1995 var golfvöllurinn í burðarliðnum. Landgræðslan var að planta hér plöntum til að hefta sandfokið úr fjörunni. Skörð höfðu myndast í Kambinum og átti sandurinn  greiða leið þar í gegn og yfir kambinn. Bæjarstjórn ákvað í samvinnu við Landgræðsluna að gera tilraun til að móta fyrir golfvelli og græða hann upp. Tilraunin tókst svona ljómandi vel og nú er þarna 18 holu völlur. Það sem er sérstakt við þennan völl er einmitt það að hann er byggður á sandi og því hægt að spila hann langt fram eftir hausti og byrja snemma á vorin.

Fjallasýnin af golfvellinum er svo mögnuð og fuglalífið einstakt. Það má þakka Kambinum að það er ekki hávaða rok alla tíð, þó að ég hafi yfirleitt spilað golf í ullarnærfötum innst klæða. Það skal reyndar tekið fram að ég spila ekki oft, helst þegar það er kvenna golf.

Kvenna golf

Kvenna golf er á miðvikudagseftirmiðdögum og þar taka á móti nýliðum konur sem hafa spilað golf í mörg ár. Ásta Júlía er þar fremst í flokki ásamt öðrum flottum konum. Kvenna golf er hugsað til að fá konur hér í sveitarfélaginu til að spila golf.  Í kvenna golfinu er ekkert kynslóðabil, þar eru konur á öllum aldri og njóta samveru hver annarrar.

Golfnámskeið

Golfklúbbur Þorlákshafnar býður upp á golfnámskeið sem eru bæði nauðsynleg og skemmtileg. Ingvar Jónsson hefur séð um kennsluna.

Það er aldrei of seint að byrja að spila golf. Ég ákvað að taka Eddu Laufeyju Pálsdóttur mér til fyrirmyndar sem byrjaði að spila golf um sjötugt. Hún naut þess að spila á fallega golfvellinum, naut fjallasýnarinnar og fuglalífsins.

Það er gaman að leika sér í fallegu umhverfi og góðum félagsskap.

Similar Posts