Janúar

Vorönnin á Níunni er hafin og segja má að starfið verði með nokkuð hefðbundnum hætti. Þeir hörðustu eru þegar byrjaðir, briddsararnir, karlarnir í karlarabbinu, leshópurinn og boccia fólkið en síðan tekur eitt við af öðru að venju

keramik
Keramik á mánudögum

Boccia verður í íþróttahúsinu á þriðjudögum kl. 10.30 og föstudögum kl. 11.00. Kortagerðin hefst 15. jan. klukkan 13.00.

Stólajógað byrjar síðan 16. jan. og verður klukkan 9.45.

Keramikmálun hefst 19. janúar.

Tiffanýnámskeiðin sem verið hafa einstaklega vinsæl hefjast 20. janúar. Þá kemur fólk og skráir sig en námskeiðin verða tvö, á þriðjudögum klukkan 13.00 og klukkan 9.00 á miðvikudagsmorgnum og standa í þrjá tíma í senn.

Spiladagur, handavinnukaffi og leshópurinn verða áfram á sínum stað á dagskránni.

Sú breyting verður á félagsvistinni að hún færist yfir á mánudagskvöld og mun hefjast kl. 20.00. Nú verða spiluð fjögur kvöld í hvoru holli, en stigafjöldinn hins vegar reiknaður út fyrir aðeins þrjú kvöld. Ef einhver dettur út eitt kvöld er sá hinn sami þar með ekki dottinn alveg út úr vistinni.

Félagsvist á mánudagskvöldum.

Spilað verður 19. og 26. janúar og 2. og 9. febrúar. Eftir viku hlé hefst seinni vistin, 23. febrúar og 2., 9. og 16. mars.

Tónar og trix kemur saman í tónlistarskólanum á fimmtudögum klukkan 17.30.

Þorrablótið vinsæla verður nú sem fyrr á Níunni á bóndadaginn, föstudaginn 23. janúar, í hádeginu. Fólk verður að skrá sig í síðasta lagi föstudaginn 16. janúar.

Aðalfundur Félags eldri borgara verður að þessu sinni klukkan 14, laugardaginn 21. febrúar.

Þá má geta þess að ætlunin er að fara í menningarferð í mars, en ekki hefur enn verið ákveðið hvert verður farið eða hvað gert.

Loks er búið að ákveða að lagt verði af stað í hina árlegu sumarferð 27. apríl og snúið heim aftur 1.maí. Er fólki bent á að merkja þessa daga á dagatalið hjá sér strax því ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Miðvikudagar fram til vors hafa ekki verið sérstaklega skipulagðir heldur nefndir námskeiðsdagar. Með því móti er alltaf dagur laus í hverri viku ef einhver fær hugmynd að námskeiði eða einhver býður upp á að koma og halda fyrir okkur námskeið á Níunni.

Stundataflan með félagsstarfinu liggur frammi á Níunni og einnig er hægt að fara inn á olfus.is og kynna sér hana þar.

Frá og með áramótunum var tekin upp sú nýbreytni að elda mat á Níunni. Borinn verður fram aðalréttur og eftirréttur og getur fólk pantað sér mat með dagsfyrirvara, sé það ekki í föstu fæði.

Komið sem oftast á Níuna til að taka þátt í starfinu, fara á göngubrettið eða æfingahjólið, í fótsnyrtingu eða hvað annað og svo er kaffisopinn alltaf góður.

fb

Similar Posts