tonarogtrix

Það var létt og skemmtileg stemmning á tónleikum sönghópsins Tóna og Trix í Ráðhúsi Ölfuss á fimmtudagkvöld 2. júní. Salurinn var troðfullur af fólki.

Hljómsveitin sem spilaði undir sönginn var ekki af verri endanum. Yngstu meðlimir sveitarinnar voru þeir Jakob Unnar Sigurðarson sem spilaði á bassa og Þröstur Ægir Þorsteinsson á trommur. Þeir eru nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og eru að útskrifast úr níunda bekk. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir verið ötulir í tónlistarlífinu hér í Þorlákshöfn jafnframt því að stunda nám við Tónlistarskóla Árnesinga. Hinir meðlimir bandsins voru þeir Davíð Ó. Davíðsson sem spilaði á gítar og Tómas Jónsson á píanó. Davíð er meðlimur í Tónum og Trix en rifjaði upp gítargripin sem hann lærði á sínum yngri árum fyrir tónleikana. Hann lét ekki þar við sitja heldur keypti sér splunkunýjan rafmagnsgítar og vígði hann við þetta tilefni. Tómas er frábær píanóleikari og er að gefa út sína fyrsti sólóplötu um þessar mundir. Hann er sambýlismaður Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur stjórnanda sönghópsins.

Sönghópurinn Tónar og Trix var stofnaður af Ásu Berglindi fyrir níu árum. Samband hennar við sönghópinn er afar náið og skemmtilegt. Samstarfið einkennist af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju. Í söngnum skein gleðin úr hverju andliti og smitar út til áheyrenda sem geta ekki annað en hreyft sig í takt við tónlistina og brosað út að eyrum. 

Fyrsta lag á tónleikunum var Haust eftir Erlu Markúsdóttur sem samdi einnig textann og syngur með sönghópnum. Lagavalið var að vanda létt og skemmtilegt og hljómsveitin puntaði svo sannarlega upp á, enda frábær. Tómas er næmur á sönghópinn, styður vel við hann og er góður hljómsveitarstjóri.

Eftir hlé gekk sönghópurinn hummandi inn í salinn við undirleik hljómsveitarinnar. Þegar hópurinn hafði komið sér fyrir á sviðinu hóf bassinn Ásberg Lárenziusarson upp raust sín. Hann söng einsöng í laginu Leiðin okkar allra eftir Þorstein Einarsson við  hinn undurfagra texta Einars Georgs Einarssonar.

Ása Berglind þakkaði stolt hvunndagshetjunni Ásbergi, eins og hún kallaði hann, fyrir sönginn. Hún sagði að hann væri aldeiis búinn að leggja sitt af mörkum til tónlistarlífsins hér í Þorlákshöfn. Hann stofnaði Lúðrasveit Þorlákshafnar. Nú syngur hann í þremur kórum í Þorlákshöfn. Áheyrendur tóku undur þessi orð, Ásu Berglindar, með miklu lófataki.

Sönghópurinn var klappaður upp og söng aukalega syrpu af sjómannalögum í tilefni af sjómannadeginum 5. júní.

Að lokum auglýsti Ása Berglind eftir söngfólki í kórinn en aldurtakmarið er 60 ára.

Tónleikagestir héldu syngjandi og glaðir út í vornóttina.

-Ýtið hér til að sjá fleiri myndir-

Similar Posts