Það var glatt á hjalla á þorrablóti Félags eldri borgara í Ölfusi og Níunnar á bóndag 22. janúar síðastliðinn. Salurinn á Níunni var fullur af prúðbúnu fólki. Borð svignuðu undan þorramat frá Kjarnafæði en um matinn sáu þær stöllur Beata og Sigga sem vinna í mötuneyti Níunnar.

Sönghefti voru á borðum með þorrasöngvum sem sungið var upp úr á milli atriða. Ester Hjartardóttir lék á píanó undir sönginn.

Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri kom að venju beint af þorrablóti Leikskólans Bergheima á þorrablót eldri borgara. Hann veit að það þarf að leggja sérstaklega góða og mikla rækt við þessa hópa sveitarfélagsins. Hann kom færandi hendi - rétti forstöðumanninum Sigrúnu Theódórsdóttur flösku af íslensku brennivíni sem hún skenkti í staup og bar á borð.

Sigrún stjórnaði söngvakeppni sem hún kallaði „Ísland got Talent.“ Hún fólst í því að keppendur áttu að þekkja lag sem hún byrjaði á að syngja og taka við þar sem hún hætti. Keppendur voru Gunnsteinn bæjarstjóri og Kristín Þorvarðardóttir starfsstúlka á Níunni. Gunnsteinn bar sigur af hólmi og uppskar mikil fagnaðalæti.

Halla Kjartansdóttir flutti frumsamda Vertíðardrápu í gamansömum tón. Drápan fjallaði um lífið í þorpinu þegar allt snérist um fiskinn, hörkutólin sem unnu myrkranna á milli við að byggja upp samfélagið og skemmtu sér þess á milli.

Þetta var vellukkað þorrablót í alla staði.

Similar Posts